Hoppa yfir valmynd
Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema

2/2023 A gegn Háskóla Íslands

Ár 2023, 7. desember, lauk áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema, þau Elvar Jónsson lögmaður og formaður nefndarinnar, Eva Halldórsdóttir lögmaður og Pétur Marteinn Urbancic Tómasson lögfræðingur málinu 

 

nr. 2/2023

A

gegn

Háskóla Íslands

 

með svohljóðandi

Ú R S K U R Ð I 

I.

Málsmeðferð

Mál þetta hófst með kæru A 21. júní 2023, sem barst áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema á vefsvæði nefndarinnar þann sama dag. Hann krefst þess að ákvörðun forseta Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands frá 25. maí 2023, um að víkja kæranda úr skóla að fullu í samræmi við 3. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, verði felld úr gildi og breytt á þann veg að kæranda verði heimiluð skólavist. Til vara er krafist vægari viðurlaga.

Nefndin óskaði eftir athugasemdum Háskóla Íslands („HÍ“ eða „skólinn“) við kæruna hinn 3. júlí 2023. Viðbrögð HÍ bárust með tölvupósti 14. júlí 2023 þar sem skólinn krafðist þess að kröfum kæranda yrði hafnað.

Nefndin fundaði með kæranda, lögmanni kæranda og fulltrúa HÍ 6. október 2023 þar sem aðilar komu sjónarmiðum sínum á framfæri munnlega.

Með tölvupósti 6. október 2023 sendi HÍ frekari gögn sem vörðuðu málið, sem áður hafði láðst að senda. Þann 23. október 2023 bárust athugasemdir kæranda við viðbótargögnin frá HÍ. Í kjölfarið taldi nefndin sig hafa öll nauðsynleg gögn undir höndum og var málið tekið til úrskurðar.

II.

Málsatvik

Kærandi var nemandi við Lyfjafræðideild á Heilbrigðisvísindasviði HÍ. Hann var í skiptinámi frá HÍ í Bandaríkjunum haustið 2022.

Á meðan skiptináminu stóð, nánar tiltekið í október 2022, hafði kærandi í líflátshótunum við samnemanda og var kærður til lögreglu. Lögð hafa verið fram gögn í málinu þar sem finna má nánari lýsingar á háttseminni og gögn sem varða meðferð máls kæranda fyrir þarlendum dómstólum og þau agaviðurlög sem hann var þar látinn sæta.

Deildarforseti Lyfjafræðideildar sendi kæranda bréf 21. febrúar 2023 þar sem fram kom sú afstaða skólans að framangreind háttsemi kæranda, sem hann hefði játað, hefði falið í sér brot gegn 2. mgr. 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008 og 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009. Yrði málið sent sviðsforseta Heilbrigðisvísindasviðs til ákvörðunar um agaviðurlög, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 og 3. mgr. 51. gr. reglna nr. 569/2009.

Með erindi forseta Heilbrigðisvísindasviðs 23. febrúar 2023 var kæranda gefinn kostur á að koma á framfæri skriflegum athugasemdum áður en endanleg ákvörðun yrði tekin um agaviðurlög, sbr. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008, sbr. og 13. gr. stjórnsýsluaga nr. 37/1993. Frestur var veittur til 2. mars 2023 en engar athugasemdir bárust frá kæranda fyrir þann tíma. Með ákvörðun forseta Heilbrigðisvísindasviðs 14. mars 2023 var kæranda vikið úr skóla að fullu í samræmi við ákvæði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.

Með erindi lögmanns kæranda 2. maí 2023 var farið fram á að mál kæranda yrði endurupptekið á grundvelli 1. mgr. 24. gr. laga nr. 37/1993. Með bréfi forseta Heilbrigðisvísindasviðs 9. maí 2023 var kæranda tilkynnt að endurupptökubeiðni hans hefði verið samþykkt og honum veittur 14 daga frestur til að koma að athugasemdum áður en ákvörðun um agaviðurlög yrði tekin.

Kærandi sendi andmæli með bréfi 12. maí 2023 þar sem þess var krafist að agaviðurlögum yrði ekki beitt. Teldu fyrirsvarsmenn HÍ ekki forsendur til að falla algerlega frá agaviðurlögum var þess krafist að áminning yrði látin nægja. Byggt var á því að kærandi væri greindur með alvarlegan geðsjúkdóm og þyrfti að vera undir eftirliti lækna, en það eftirlit hefði farið úr skorðum meðan hann dvaldi í Bandaríkjunum og lyfjastillingu verið ábótavant. Hann hafi lent í geðrofi, glímt við ranghugmyndir, aðsóknarkennd og ofsahræðslu og verið nauðungarvistaður eftir að hann kom aftur til Íslands. Hann hefði í kjölfar þess fengið viðeigandi meðferð og lyfjastillingu, væri ekki lengur í geðrofi og sinnti eftirliti með sjúkdómi sínum. Hann iðraðist sárlega framkomu sinnar á meðan hann hefði verið í geðrofi og hafi þurft að taka alvarlegum afleiðingum sem hún hefði haft í för með sér.

Með ákvörðun forseta Heilbrigðisvísindasviðs 25. maí 2023 var ákveðið að víkja kæranda úr skólanum að fullu í samræmi við 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008. Háttsemi hans hefði verið verulega ógnandi og til þess fallin að valda miklum ótta og veikindi hans gætu ekki leyst hann undan ábyrgð á þeim. Háttsemin væri svo alvarlega að áminning kæmi ekki til álita. Athygli kæranda var einnig vakin á möguleikum hans til að skrá sig aftur til náms í háskólanum að skilyrðum 4. mgr. 19. gr. fullnægðum. 

III.

Málsástæður kæranda

Kærandi vísar um málsástæður og rökstuðning til fyrirliggjandi gagna málsins, einkum til andmælabréfsins frá 12. maí 2023.

Kærandi byggir kröfur sínar á því að hann sé greindur með alvarlegan geðsjúkdóm og þurfi af þeim sökum að vera undir eftirliti lækna. Á meðan á dvöl hans í Bandaríkjunum stóð hafi eftirlitið farið úr skorðum og lyfjastillingu verið ábótavant. Kærandi hefði lent þar í geðrofi og væri engan veginn sjálfrátt í því ástandi. Hann glímdi við ranghugmyndir, ákafa aðsóknarkennd og ofsahræðslu sem hafi m.a. orðið til þess að hann eyðilagði vegabréf sitt, lokaði á samskiptaleiðir við sína nánustu, lenti í sjálfsvígshættu og taldi sig þurfa að verjast ýmsu fólki, bæði sínum nánustu og ókunnugum. Kærandi byggir á því að hann hafi engan ásetning haft um að ógna öðrum eða gera þeim nokkuð til tjóns, heldur hafi hann verið skelfingu lostinn og talið sig þurfa að verjast. Þetta ástand hafi orðið til þess að hann hafi verið vistaður í fangelsi, enda væri afstaða bandarískra stjórnvalda til geðsjúkra ólík þeirri sem einkenni ríki Vestur-Evrópu. Við komuna til Íslands hefði kærði verið nauðungavistaður á geðdeild, enda hafi hann ekki haft innsýn í ástand sitt á þeim tíma, verið sjálfum sér hættulegur og alls ófær um að taka ákvarðanir varðandi velferð sína.

Kærandi hefði í kjölfarið fengið viðeigandi meðferð og lyfjastillingu. Hann væri ekki lengur í geðrofi og að mati lækna fær um að fara með sjálfræði sitt. Hann væri undir eftirliti lækna og hefði ákveðið að fara ekki í langferðir nema lyfjastilling og annað eftirlit með sjúkdómi hans væri tryggt. Hann iðraðist sárlega framkomu sinnar meðan hann hafi verið í geðrofi og hefði þegar gengið í gegnum miklar og alvarlegar afleiðingar þess.

Kærandi byggir á því að þegar stjórnvöld taki íþyngjandi ákvarðanir um rétt manna og skyldur sé það skilyrði að meðalhófs sé gætt. Það feli bæði í sér að ekki skuli beita harðari úrræðum en þeim sem nauðsyn krefji til að ná því markmiði sem stefnt sé að, og að ekki skuli ganga lengra í beitingu þeirra úrræða sem nauðsynleg þyki en þörf krefji hverju sinni. Hin óskráða regla um skyldubundið mat stjórnvalda feli einnig í sér að þótt viðurlög við afbrotum gildi almennt þá þurfi að taka ákvörðun í ljósi þeirra sérstöku aðstæðna sem uppi séu hverju sinni.

Ágreiningslaust sé að háttsemi sem kærandi sýndi, meðan hann var í geðrofi og fjarri læknum sem þekktu framvindu sjúkdóms hans, sé ósamrýmanleg reglum skólans. Kærandi hafi einnig fullan skilning á því að framganga hans gagnvart samnemanda hans í Bandaríkjunum hafi verið til þess fallin að vekja mikinn ótta. Hann telji þá framkomu ekki afsakanlega í þeim skilningi að það sé réttlætanlegt að ógna öðrum. Hann telji aftur á móti að vegna ástands síns á þeim tíma eigi framganga hans að vera refsilaus af hálfu HÍ.

Ákvörðun um brottvísun sé augljóslega mjög íþyngjandi og til þess fallin að hafa veruleg áhrif á framtíð kæranda og þess vegna sé mikilvægt að meðalhófs sé gætt. Markmið HÍ með því að vísa kæranda úr skóla sé væntanlega að vernda nemendur og starfsfólk og gefa þau skilaboð að háttsemi hans í umrætt sinn verði ekki umborin af hálfu stjórnenda. Þar sem kæranda hafi ekki verið sjálfrátt þegar þeir atburðir, sem voru forsenda brottvikningar hans úr HÍ, hafi átt sér stað og þar sem hann hafi gripið til aðgerða til að slíkt endurtaki sig ekki, telji kærandi að í ljósi meðalhófsreglu og skyldubundins mats stjórnvalda séu engar forsendur til brottvikningar að fullu. Áminning sé vægara úrræði en varla viðeigandi í ljósi nútíma þekkingar og viðhorfa til geðsjúkra að áminna kæranda fyrir veikindi sín.

Kærandi byggir á því að markmiðum sem HÍ vilji ná með agaviðurlögum yrði best fullnægt með ábendingu um að sú háttsemi sem um ræði sé litin alvarlegum augum og því sé gerð sú krafa til kæranda og annarra nemenda sem glími við samskonar og skyld vandamál að þeir taki ábyrgð á geðheilsu sinni með því að leita sér lækninga eftir þörfum og hlíta læknisráðum.

Á fundi nefndarinnar með aðilum ítrekaði kærandi gerðar kröfur. Ekki væri deilt um atvik og óumdeilt að reglur hefðu verið brotnar, en að deilt væri um meðalhóf í viðbrögðum HÍ. Það eigi að vera mat læknis hvort kærandi sé reiðubúinn að snúa aftur til náms og meðalhóf myndi m.a. felast í því að kærandi skilaði vottorðum um eftirfylgni lækna með sjúkdómi hans.

Á fundinum var jafnframt upplýst af hálfu kæranda að hann sækti nú reglulega göngudeild og þá læknisaðstoð sem þyrfti til að halda sér frá geðrofi. Var vísað til framlagðs læknisvottorðs frá 27. september 2023 því til staðfestingar.

IV.

Málsástæður Háskóla Íslands

HÍ krefst þess að kröfum kæranda verði hafnað.

Um málsástæður sínar og rökstuðning var vísað til niðurstöðu deildarforseta Lyfjafræðideildar fá 21. febrúar 2023 og ákvörðunar forseta Heilbrigðisvísindasviðs frá 25. maí 2023.

Skólinn byggir þannig á því að brot kæranda, sem áður hafa verið rakin og sem kærandi hefur játað, séu ósamrýmanleg þeirri háttsemi sem ætlast sé til af nemendum HÍ. Kærandi hafi sýnt af sér umrædda háttsemi þegar hann hafi stundað skiptinám sem fulltrúi HÍ og að hún hafi falið í sér brot gegn 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008, sbr. 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009.

Þrátt fyrir veikindi kæranda verði ekki framhjá því litið að háttsemi hans hafi verið verulega ógnandi og til þess fallin að valda miklum ótta hjá þeim nemanda sem háttsemin beindist að. Ekki verði fallist á að veikindi kæranda geti leyst hann undan ábyrgð á umræddu broti. Háttsemin hafi verið það alvarleg að áminning hafi ekki komið til álita. Hefði því ekki verið hjá því komist að víkja kæranda úr skóla að fullu í samræmi við 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.

Á fundi nefndarinnar var óskað eftir upplýsingum frá HÍ um hvort til staðar væru viðmið um mat á alvarleika brota gegn ákvæðum laga og reglna um sem um skólann gilda. Af hálfu HÍ kom fram að svo væri ekki heldur væri hvert mál metið fyrir sig en þó þannig að jafnræðis væri gætt við afgreiðslu slíkra mála. Aðspurður kvað fulltrúi HÍ markmiðið með brottvísuninni vera að vernda samnemendur kæranda og háskólasamfélagið. Þá var ítrekað að kærandi gæti sótt aftur um námsvist á grundvelli 4. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 að tilteknum tíma liðnum. Við mat á því hvort slík beiðni yrði samþykkt væri rektor skólans bundinn af reglum stjórnsýsluréttarins.

 

 

V.

Niðurstaða

Ágreiningur máls þessa lýtur að þeirri ákvörðun forseta Heilbrigðisvísindasviðs HÍ frá 25. maí 2023 að vísa kæranda úr skólanum að fullu á grundvelli brota hans gegn 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008, sbr. og 1. mgr. 51. gr. reglna um HÍ nr. 569/2009.

Í 19. gr. laga um opinbera háskóla nr. 85/2008, sem eiga við um HÍ, er fjallað um réttindi og skyldur nemenda í opinberum háskólum. Samkvæmt 2. mgr. 19. gr. skal nemandi forðast að hafast nokkuð það að í námi sínu eða í framkomu sinni innan og utan skólans sem er honum til vanvirðu eða álitshnekkis eða varpað getur rýrð á nám hans eða skóla. Sambærilega reglu er að finna í 1. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ nr. 569/2009.

Enginn ágreiningur er milli aðila um að kærandi hafi með háttsemi sinni í október 2022 brotið gegn ákvæðum 2. mgr. 19. laga nr. 85/2008, sbr. og 1. mgr. 51. gr. reglna nr. 569/2009. Er sú forsenda, þ.e.a.s. að kærandi hafi með háttsemi sinni brotið gegn framangreindum ákvæðum, því lögð til grundvallar af hálfu nefndarinnar.

Í 3. mgr. 19. gr. laganna, sbr. 3. mgr. 51. gr. reglna fyrir HÍ, kemur fram að ef nemandi gerist sekur um háttsemi skv. 2. mgr. eða sem sé andstæð lögunum eða reglum settum samkvæmt þeim, skuli forseti þess skóla þar sem hann er skráður til náms taka mál hans til meðferðar. Að teknu tilliti til alvarleika brots geti forseti veitt nemanda áminningu eða vikið honum úr skóla um tiltekinn tíma eða að fullu. Áður en ákvörðun um brottrekstur sé tekin skuli gefa nemanda kost á að tjá sig um málið. Nemanda sé heimilt að skjóta ákvörðun forseta til áfrýjunarnefndar samkvæmt lögum um háskóla og að málskot fresti framkvæmd ákvörðunar forseta.

Kærandi hefur lýst yfir iðrun og upplýst að hann telji framkomu sína ekki afsakanlega í þeim skilningi að það sé réttlætanlegt að ógna öðrum. Þá hafi hann skilning á því að háttsemi hans hafi verið til þess fallin að vekja mikinn ótta. Hann hafi hins vegar engan ásetning haft til að ógna öðrum eða gera öðrum nokkuð til tjóns. Kærandi hefur skýrt háttsemina með því að hann sé greindur með alvarlegan geðsjúkdóm sem krefjist lyfjagjafar og eftirlits og þar sem það hafi farið úr skorðum meðan á skiptináminu stóð hafi hann lent í geðrofi og ekki verið sjálfrátt.

Að mati nefndarinnar gaf sú háttsemi kæranda, sem áður er lýst og sem er tilefni máls þessa, skólanum fullt tilefni til að beita agaviðurlögum samkvæmt 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.

Jafnvel þó fallist yrði á það með kæranda að skýringu á umræddri háttsemi sé að finna í þeim veikindum sem hann glímir við og geðrofi sem orsakaðist af því, verður ekki hjá því litið að háttsemin var í eðli sínu mjög alvarleg og til þess fallin að vekja ótta hjá þeim sem fyrir henni varð og öðrum samnemendum kæranda og starfsfólki HÍ. Þá er ekki ágreiningur með aðilum um að háttsemin hafi verið til þess fallin að verða kæranda til vanvirðu, álitshnekkis og varpa rýrð á nám hans og á HÍ, sbr. 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008.

Ákvæði 3. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 mæla ekki fyrir um hvernig leggja skuli mat á alvarleika brota gegn lögum og reglum. Þá er engar nákvæmar leiðbeiningar að finna í lögskýringargögnum með ákvæðinu. Þannig hefur löggjafinn eftirlátið opinberum háskólum mat á alvarleika brota svo unnt sé að taka ákvörðun sem hentar best hverju sinni, að teknu tilliti til aðstæðna og með hagsmuni skólanna í huga. Verður þess vegna að játa HÍ nokkurt svigrúm við mat á því hvernig rétt hafi verið að bregðast við þeim aðstæðum sem komnar voru upp í kjölfar framkomu kæranda í garð samnemanda síns, að virtum meginreglum stjórnsýsluréttarins.

Í því máli sem hér er til skoðunar hefur HÍ upplýst að markmiðið með brottvísun kæranda hafi verið að vernda samnemendur kæranda og háskólasamfélagið allt. Slík markmið verða að teljast málefnaleg á alla mælikvarða. Þá hefur HÍ lagt áherslu á það að kærandi hafi í skiptinámi sínu verið fulltrúi skólans. Háttsemi hans hafi því verið til þess fallin að verða kæranda til vanvirðu, álitshnekkis og varpa rýrð á nám hans og á HÍ, í skilningi 2. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008. Að mati nefndarinnar verður að fallast á að HÍ hafi af því ríka hagsmuni af því, annars vegar að nemendur og starfsfólk skólans telji sig örugga í því umhverfi sem skólinn býður upp á og, hins vegar, að orðspor skólans og virðing fyrir honum bíði ekki hnekki. Verður einnig að fallast á það með HÍ að meðalhófs hafi verið gætt við töku umþrættrar ákvörðunar enda hafi vægari úrræði ekki verið tæk til að ná því markmiði sem stefnt var að. Verður í því sambandi að líta til þeirra upplýsinga sem lágu fyrir við töku ákvörðunarinnar og ekki síður til alvarleika háttsemi kæranda.

Þá verður jafnframt að taka tillit til þess að samkvæmt 4. mgr. 19. gr. laga nr. 85/2008 getur rektor, að hæfilegum tíma liðnum, heimilað kæranda að skrá sig aftur til náms ef aðstæður hans hafa breyst. Ákvæðið markar þannig farveg fyrir kæranda til að sækja um skólavist að nýju á þeim forsendum að aðstæður hans hafi breyst frá því ákvörðunin var tekin.

Með hliðsjón af framangreindu er kröfum kæranda hafnað.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Kröfu kæranda um að ákvörðun forseta Heilbrigðisvísindasviðs frá 25. maí 2023 verði felld úr gildi er hafnað. Þá er kröfu kæranda um vægari viðurlög en brottvikningu að fullu einnig hafnað.

 

Elvar Jónsson

 

Eva Halldórsdóttir                                                                 Pétur Marteinn Urbancic Tómasson


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum